Skattskylda barna

Skattskylda barna.

Börn sem eru undir 16 ára aldri á viðkomandi tekjuári teljast ekki sjálfstæðir skattaðilar ef þau eru á framfæri foreldra sinna.  Því ber að telja eignir þeirra og tekjur fram með tekjum og eignum foreldranna nema um launatekjur sé að ræða en þær tekjur skattleggjast sérstaklega hjá barninu. Börn fá ekki persónuafslátt en eru með frítekjumark sem er 180.000 kr. á ársgrundvelli. Séu tekjur barnsins hærri greiðir það tekjuskatt (4%) og útsvar (2%) af mismuninum. Heildarskatthlutfall barns er því 6%. Tekjurnar eru staðgreiðsluskyldar og reikna ber tryggingagjald af laununum.

Dæmi:  Árstekjur barns eru 230.000 kr. Skattur er þá greiddur af 230.000 – 180.000 = 50.000 kr.

Aðrar tekjur barns skattleggjast hjá foreldrinu sem hefur hærri hreinar tekjur eða með tekjum þess foreldris eða þess manns sem nýtur barnabóta með barninu.

Skattfrelsi teknanna er ekki háð því að barnið vinni við atvinnurekstur foreldra sinna en ef þannig háttar til gætu skattyfirvöld litið til þess hvort laun barnsins séu eðlileg miðað við aldur, vinnuframlag og sambærileg störf annars staðar.