Akstursstyrkur – allt sem þú þarft að vita

​Ökutækjastyrkur er greiðsla frá launagreiðanda til launþega  fyrir noktun eigin bifreiðar í starfi. Greiðslan getur bæði verið föst fjárhæð t.d. á mánuði og gjald fyrir hvern kílómetra samkvæmt akstursdagbók eða akstursskýrslu.

Heimilt er að draga kostnað vegna reksturs bifreiðarinnar frá á móti þessum greiðslum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum:

  1. Launþegi notar eigin bifreið í þágu launagreiðanda og ber kostnað af. Rekstrarkostnaðurinn þarf að vera sannanlegur og er því nauðsynlegt að halda saman kvittunum fyrir öllum útlögðum kostnaði vegna bifreiðarinnar.
  2. Færð hafi verið akstursdagbók eða akstursskýrslaþar sem skráð er hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, kílómetragjald, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis. Færa skal þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess.
  3. Enginn frádráttur er heimill vegna ökutækjastyrks sem fenginn er vegna aksturs á milli heimilis og vinnustaðar!

Frádráttarbær kostnaður

  1. Sá hluti af heildarrekstrarkostnaði bifreiðarinnar sem svarar til afnota hennar í þágu launagreiðanda.Ákveðið hámark er á frádrætti miðað við hvern ekinn kílómetra í þágu launagreiðanda, sem ákveðið er á ári hverju. Hámarkið getur tekið breytingum innan ársins, en við álagningu er hámarksfjárhæðin vegið meðaltal af þeim fjárhæðum sem í gildi voru á tekjuárinu. Aldrei leyfist þó hærri fjárhæð til frádráttar en talin er til tekna sem ökutækjastyrkur. Rekstrarkostnaður er t.d. eldsneytiskostnaður, viðgerðarkostnaður, smurning, hjólbarðar og viðgerðir á þeim, tryggingar og bifreiðagjöld.
  2. Hlutfallsleg árleg afskrift sem nemur nýtingu mest einnar bifreiðar í eigu launagreiðanda á hverjum tíma. Bifreið getur t.d. verið í eigu launþega hluta úr ári og notuð allan tímann í þágu launagreiðanda. Við slíkar aðstæður skal hlutfalla afskrift til samræmis við eignarhaldstíma á árinu.
  3. Fái launþegi greitt svonefnt „sérstakt gjald” (vegna aksturs á vegum fyrir almenna umferð þar sem ekki er bundið slitlag) eða „torfærugjald” (vegna aksturs utan vega eða á vegaslóðum sem ekki eru færir fólksbílum) á árinu má hækka hámarksfrádrátt fyrir hvern ekinn kílómetra sem hann fær greiddan samkvæmt „sérstöku gjaldi” og/eða samkvæmt „torfærugjaldi”, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir því að starfslegar forsendur fyrir greiðslu sérstaks gjalds og torfærugjalds séu uppfylltar.

3.000 km reglan

Fái starfsmaður greiðslu fyrir almenn afnot af bifreið sinni og endurgreiðsla á kostnaði hafi verið miðuð við 3.000 km eða minna er ekki krafist sundurliðunar á rekstrarkostnaði. Þó er gert að skilyrði að færð hafi verið akstursdagbók eða akstursskýrsla eða fyrir liggi skriflegur afnotasamningur þar sem aksturserindum er skilmerkilega lýst og að eyðublað RSK 3.04 hafi verið útfyllt í samræmi við reglur þær sem þar koma fram.

Staðgreiðsla skatts af ökutækjastyrk

Ökutækjastyrkur sem greiddur er sem föst mánaðarleg eða árleg fjárhæð er staðgreiðsluskyldur. Ef um er að ræða ökutækjastyrk sem greiddur er samkvæmt akstursdagbók fyrir hvern ekinn kílómetra og fjárhæðin er í samræmi við skattmat, má halda þeim ökutækjastyrk utan staðgreiðslu.

Samgöngustyrkur

Samkvæmt reglum í skattmati skal ekki telja til skattskyldra hlunninda greiðslu launagreiðanda á kostnaði launþega vegna ferða milli heimilis og vinnustaðar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda, ef nýttar eru almenningssamgöngur eða vistvænn samgöngumáti að hámarki samtals 7.000 kr. á mánuði og að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

  1. Undirritaður sé formlegur samningur milli launagreiðanda og launþega um nýtingu á almenningssamgöngum eða vistvænum ferðamáta vegna ferða launþegans til og frá vinnu sinnar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda.
  2. Með vistvænum samgöngumáta er átt við að nýttur sé annar ferðamáti en með vélknúnum ökutækjumsamkvæmt skilgreiningu umferðarlaga, t.d. reiðhjól eða ganga.
  3. Séu framangreind skilyrði ekki uppfyllt er alltaf um að ræða skattskyld hlunnindi án frádráttar ef greiðsla er vegna ferða launþega til og frá vinnu.

Ef greiddir eru samgöngustyrkir sem ætlaðir eru til að greiða kostnað manna við ferðir sem ekki eru í þágu launagreiðanda er um að ræða skattskyldar tekjur hjá móttakanda án nokkurs frádráttar nema ef um er að ræða greiðslur sem uppfylla framangreind skilyrði.

Launþegi sem ferðast almennt á vistvænan hátt en notar svo stundum bíl til að útrétta getur átt rétt á að nýta samgöngustyrk og fá greiddan ökutækjastyrk.​