Útvistun eða eigin vinna?

Vönduð bókhaldsvinna hvort sem hún er í útvistun eða eigin vinna er grundvöllur þess að reksturinn gangi upp. Það vita allir sem reynslu hafa af rekstri fyrirtækja. Að sama skapi er líka rétt að vinna við bókhald er tímafrek. Tími eigenda sem fer í að færa bókhald er tími sem líkast til væri betur nýttur í að sinna grunnþáttum rekstursins.

Í upphafi er stundum besti kosturinn að færa sitt eigið bókhald. Sá sem tekur tíma í að færa bókhaldið sjálfur sparar útlagðan kostnað. Það er líka kostur að sá sem færir sitt eigið bókhald nær að átta sig á ýmsu varðandi reksturinn og hefur alltaf aðgang að öllum gögnum.

Til lengdar er eigin vinna við að færa bókhaldið ekki ekki endilega góður valkostur. Það að færa sitt eigið bókhald getur þegar upp er staðið reynst dýrkeypt. Mistök og misskilningur getur leitt til kostnaðarauka.

Bókhaldsvinna hentar vel til útvistunar og er góð lausn ef stærð fyrirtækisins leyfir ekki að ráðinn sé sérstakur starfsmaður í bókhald. Raunin er til dæmis sú að oft þegar kemur að því að færa bókhaldið í hendur fagmanna til að útbúa ársreikning og skila framtali þarf að vinna töluvert upp aftur, og sú vinna getur auðveldlega gert sparnað við eigin vinnu að engu. Auk þessa þarf að taka með í reikninginn kostnað við hugbúnað, tæki og tól.

Á einhverjum  tímapunkti kemur að því að fólk sem stendur í fyrirtækjarekstri vaknar upp við að annaðhvort geta ekki eða vilja ekki lengur sinna bókhaldsfærslunni sjálft. Þegar þar er komið sögu er besta lausnin að útvista bókhaldinu til sérfæðinga í bókhaldi.

Fyrir utan augljósan tímasparnað, fylgir útvistun margvíslegur ábati,  aðgangur að sérfræðiþekkingu í bókhaldi og oft á tíðum margháttað liðsinni; með því að bókhaldarinn öðlast innsýn í rekstur fyrirtækisins getur  hann verið eiganda þess til skrafs og ráðagerða um reksturinn. Ef tekin er ákvörðun um að útvista bókhaldinu er því mikilvægt að eigandinn sjái áfram um gjaldkerahlutverkið og láti peningaumsýslu ekki í annarra hendur.

Margir eigendur smærri fyrirtækja hafa góða reynslu af því að útvista bókhaldinu, en með stækkun fyrirtækisins getur komið að því að ákveðið er ráða sérstakan starfsmann til að sjá um bókhaldið. Það er hins vegar ágætis viðmið að reikna með því að það sé líklega ekki orðið fullt starf að sjá um bókhaldið fyrr en starfsmenn eru orðnir um þrjátíu.

Það eru margir kostir við að fá aðstoð við að færa bókhaldið og sjá um  gagnaskil og samskipti sem tengjast því. Þegar ekki hvílir lengur á eigandanum að sinna bókhaldinu, losnar tími sem hægt er að nota til þess að hugsa, vinna áætlanir og huga að framtíð rekstrarins. Með útvistun bókhaldsins til traustrar bókhaldsþjónustu fær fyrirtæki aðgengi að sérfræðingi með víðfeðma þekkingu á rekstri minni fyrirtækja. Eigandinn getur beint orku sinni og tíma að því að rækta fyrirtækið og það skilar sér í afkomunni. ​