Launavinnsla

​​Launavinnsla er mikilvægur grunnþáttur í rekstri fyrirtækja. Að ýmsu þarf að gæta til að tryggja hnökralausa afgreiðslu á launum, sköttum og skilagreinum: huga að því að grundvallarforsendur séu réttar, taka saman gögn, framkvæma launavinnsluna og undirbúa útgreiðslur.

Grundvöllur hnökralausrar launavinnslu er að allar forsendur launaútreikninga séu rétt upp settar í launakerfum. Styðjast þarf við réttar skattprósentur og að skattkortsupplýsingar starfsmanna séu rétt uppsettar.  Ennfremur þarf að skrá þá lífeyrissjóði og verkalýðsfélög sem starfsmen greiða í og greiðsluforsendur hvers um sig.

Fyrsta stig hverrar launavinnslu er að taka saman allar upplýsingar sem eiga erindi á launaseðla. Telja þarf saman unna tíma, frítíma og veikindadaga. Í sumum tilvikum þarf að taka saman úttektir starfsmanna, fyrirframgreiðslur og ýmsar aukagreiðslur, svo sem dagpeninga, ökutækjastyrk, ferðastyrk og líkamsræktarstyrk.

Þegar búið er að taka saman allar nauðsynlegar upplýsingar er komið að því að færa þær inn í launakerfið og reikna launin. Eftir að gengið er úr skugga um að niðurstöður launakeyrslunnar séu villulausar má prenta út launaseðla og senda skilagreinar á rétta staði. Þá er svo komið að hægt er að greiða út laun, skatta og launatengd gjöld.

Villulaus launaafgreiðsla er mikilvæg forsenda starfsánægju og kemur í veg fyrir aukavinnu vinnuveitanda við leiðréttingar og samskipti við innheimtuaðila. Til að tryggja rétta útkomu er mikilvægt að vinna skipulega og af vandvirkni og gæta þess að klára sérhvert þrep vinnslunar áður en áfram er haldið.